Utanhúsklæðningar úr timbri

Timburklæðningar hafa verið notaðar sem vind- og veðurvörn á hús um aldir með góðum árangri en  timbur er einstaklega umhverfisvænt efni með lítið kolefnisspor. Algengustu klæðningartegundir gegnum árin á Íslandi hafa verið máluð fura, greni og nú síðustu árin hefur lerki einnig verið notað og þá oft ómálað. Aðrar viðartegundir hafa líka verið notaðar með góðum árangri t.d. Accoya, Sedrus, Jatoba, Padouk, Garapa, Itauba, Merbau og hitameðhöndlað efni.

Utanhúsklæðningar falla oftast í áhættuflokk 3.2, efni sem er utanhús, ekki í jörðu, óvarið og oft blautt samkvæmt ÍST EN 350-2:1994. Þær timburtegundir sem mælt er með að nota ómeðhöndlaðar þegar slíka áhætta er til staðar eru viðartegundir í endingarflokki 1-3 samkvæmt ÍST EN 350-2:1994.

Líftími timburs og þá eingöngu kjarnviðs er flokkaður í 5 flokka þar sem flokkur 1 endist mjög lengi og 5 mjög stutt ef viðurinn er notaður úti óvarinn og oft blautur. Öll risja er í endingarflokki 5 og er til staðar í furu, greni og lerkiborðum. Harðviðarborð eru oftast risjulaus.

Leiðbeinandi líftími ómeðhöndlaðra timburklæðninga, á eingöngu við um kjarnvið:

  • Endingarflokkur 1 –  50 – 60 ár +
  • Endingarflokkur 2 – 40 – 50 ár
  • Endingarflokkur 3 – 25 – 40 ár
  • Endingarflokkur 4 – 12 – 25 ár
  • Endingarflokkur 5 –  6 – 12 ár

Með reglulegu viðhaldi málun eða fúavörn má tvöfalda líftíma klæðninga. Þykkara efni endist líka lengur.

Val á viðartegund, útfærsla og hönnun geta haft mikil áhrif á líftíma og endingu timburklæðninga svo endilega leitið upplýsinga hjá okkur eða komið í heimsókn á Smiðjuveg 16, rauð gata, 200 Kópavogi en þar erum við með mikið úrval sýnishorna og veitum upplýsingar um þá fjölda möguleika sem eru í boði.

Fura, greni og lerki

Lerki klæðning
Waldorfskólinn Sólstafir

Í gegnum árin hafa mörg falleg timburhús á Íslandi verið klædd með furu sem hefur verið máluð og viðhaldið reglulega en þannig utanhúsklæðning getur endst áratugum saman með góðu viðhaldi. Sama getur átt við um sérvalið og málað greni sem og lerki ef það er málað eða meðhöndlaðar með fúavarnarefnum. Kjarnviður furu og lerkis er í endingarflokki 3-4 en grenið er í endingarflokki 4. Til þess að furan og grenið uppfylli kröfur um líftíma sem utanhúsklæðning er það málað og fúavarið reglulega. Lerkið er oft notað ómeðhöndlað en það er hægt þar sem hlutfall kjarnviðs í lerki er mun hærra en í furu og greniborðum. Til að tryggja langan líftíma á lerki væri þó mjög skynsamlegt að bera á það reglulega. Með reglulegu viðhaldi má tvöfalda líftíma margra timburklæðninga sem geta þá enst mjög lengi.    

Best er að hafa klæðningar úr furu, greni eða lerki með grófheflaðu yfirborði eða bandsöguðu. Þannig  má stækka yfirborðið, málning tollir mun betur við efnið, þarf sjaldnar að mála. Gera má ráð fyrir að það þurfi að mála furu, greni og lerkiklæðningar c.a. 4 til 5 sinnum yfir líftíma klæðningarinnar eða á 8 til 10 ára fresti. Ef timbrið er málað í verksmiðju getur málningin endst mjög vel þar sem efnið er málað við rétt rakastig.   

Sögin getur útvegað klæðningar í furu, greni og lerki, bæði ómálaðar eða málaðar, bandsagaðar, sléttar eða grófheflaðar. Hægt að fá klæðningar smíðaðar í fjölda þykkta og breidda. Fjöldi prófílgerða í boði fyrir bæði standandi klæðningar og liggjandi.  

 

Gagnvarin fura

Hægt er að nota gagnfúavarða furu án málunar sem timburklæðningu en hún mun endast mjög vel og grána með tímanum. Hægt er að fá efnið fúavarið í nokkrum litum t.d.  gráum lit, brúnum, grænum eða svörtu. Þetta er ein ódýrasta leiðin til að búa til endingargóða klæðningu sem getur dugað mjög vel. Hægt að gera þetta bæði við kvistað efni sem og sérvalda kvistalitla furu. Fúavarnarefnin sem notuð eru í dag þurfa að uppfylla strangar kröfur Evrópusambandins um leyfileg innihaldsefni. 

Sögin getur útvegað klæðningar í furu, greni og lerki, bæði ómálaðar eða málaðar, bandsagaðar eða , sléttar. Hægt að fá klæðningar smíðaðar í fjölda þykkta, breidda. Fjöldi prófílgerða í boði fyrir bæði standandi klæðningar og liggjandi.  

 
 

Gegnfúavarið greni (Superwood)

Superwood greni klæðning
Superwood greni – Yrki arkitektar

Sögin selur klæðningar frá danska fyrirtækinu Superwood en fyrirtækið hefur þróað aðferðarfræði og byggt verksmiðju sem er sú eina sinnar tegundar í heiminum sem fúaver greni. Aðferðin byggir á því að nota koltvísýring undir miklum þrýstingi til að flytja unhverfisvæn fúavarnarefni í gegnum timbrið.  Fúavarnarefnið festist við viðarfrumurnar alla leið í gegnum timbrið, ekki bara á yfirborðinu og tryggir þannig langan líftíma timbursins. Eftir gegnfúavörn hefur viðurinn enn sömu eiginleika og áður.

Gegnfúavarið greni er mjög gott efni í utanhúsklæðningar, viðurinn er lokaður og það lágmarkar upptöku vatns. Greni heldur líka vel formi og vindur sig minna en t.d. lerki.

Grenið lítur alveg eins út fyrir og eftir meðhöndlun og er mjög ljóst. Þannig er hægt að yfirborðsmeðhöndla það í öllum mögulegum litum – líka gegnsætt. Loks heldur viðurinn sama raka og þar með þyngd og fyrir gegnfúavörn. Efnið verður fallega grátt við veðrun.

Superwood notar sérvalið FSC vottað skandinavískt greni í vinnsluna og notar ekki mergborð en þau eiga það til að springa upp eftir miðjunni. Efnið er að mestu leiti grófheflað til að tryggja góða viðloðun yfirborðsefna. Superwood grenið er Cradle to Cradle Certified® vottuð vara og því með þeim umhverfis-vænustu sem völ er á.

Sjá heimasíðu Superwood www.superwood með ýtarlegri upplýsingum um prófílgerðir, stærðir og fl. Sögin getur útvegað allar gerðir á lager sem og látið sérsmíða klæðningar sé þess óskað.

 

Hitameðhöndlað efni

Sögin selur timburklæðningar og hitameðhöndlað timbur frá hollenska fyrirtækinu Platowood en fyrirtækið hefur þróðað og byggt verksmiðju sem er eina sinnar tegundar í heiminum. Einstök aðferð Platowood byggir á vatnshitameðhöndlun á timbri (hydrothermal modification) í þremur skrefum. Efnið er þurrkað, hitað og bakað sem fjarlægir fæðu örvera og eykur stöðugleika timbursins til muna. Þar sem efnið er hitað við lægra hitastig en almennt gerist þá heldur viðurinn líka mun betur náttúrulegum eiginleikum og verður síður stökkur eins og alment gerist við hitameðhöndlun á timbri. Platowood framleiðir aðeins úr umhverfisvænu FSC vottuðum timburtegundum eins og Greni, Poplar og Frake. Engin efni eru notuð við meðhöndlunina önnur en hiti og vatn og er efnið því einstaklega umhverfisvænt. Mjög auðvelt er að eldverja hitameðhöndlaða efnið frá Platowood og er hægt að fá það allt eldvarið í B-s1, d0. 

Sjá heimasíðu Platowood www.platowood.com með ýtarlegri upplýsingum um prófílgerðir, stærðir og fl. Sögin getur útvegað allar gerðir á lager sem og látið sérsmíða klæðningar sé þess óskað.  

Sjá staðlaða prófíla frá Platowood, prófílar í pdf. skrá,  

https://www.platowood.com/upload_directory/files/Profile%20overview%20Platowood.pdf

Sögin getur einnig útvegað hefðbundið hitameðhöndlað efni frá öðrum framleiðleiðendum en þar má t.d. nefna hitameðhöndlaða Furu, Ask, Ayous, Bambus og fleiri tegundir. 

Hitameðhöndlað efni er brúnt á litinn og oftast í endingarflokki 1 og 2 og það er því hægt að nota ómeðhöndlað í utanhúsklæðningu. Ef það er ekki yfirborðsmeðhöndlað þá verður það fljótlega grátt við veðrun. 

 

Harðviður

Í samstarfi við einn stærsta timburbirgja Evrópu getur Sögin boðið klæðningar í yfir 100 viðartegundum úr harðviði og mjúkviði. Megnið af þessum tegundum getum við boðið FSC umhverfisvottaðar. Getum útvegað viðarklæðningar í endingarflokkum 1 til 3 sem geta enst í marga áratugi. Þetta geta verið t.d. klæðningar úr Tekki, Afrormosia, Mahogany, Merbau, Afzelia, Guariuba, Padouk, Eik, Itauba, Jatoba, Iroko, Cumaru, Ipe og fleiru. Flestar harðviðartegundirnar eru mjög þéttar, harðar og þungar. Allar harðviðartegundirnar grána með veðrun og eina leiðin til að halda þeim við er að bera á þær mjög reglulega olíu sem veðrast af og þarf að viðhalda reglulega. Harðviðurinn þarf að vera vel þurrkaður eða í 13 til 16% MC til að tryggja lágmarks formbreytingu á viðnum við veðrun. 

Sögin hefur margra áratuga reynslu í vinnslu og innflutningi á harðviðarklæðningu og getur aðstoðað  við val á viðartegundum. Frekari upplýsingar fást hjá starfsmönnum Sagarinnar. Hægt er að smíða fjölda prófíla þar sem efnið fæst í fjölda þykkta og breidda.       

 

Accoya

Sögin getur smíðað klæðningar úr umbreytta timbrinu Accoya frá fyrirtækinu Accsys Technologies í Bretlandi en félagið hefur þróað og byggt verksmiðju sem er eina sinnar tegundar í heiminum.  Einstök aðferð Accsys Technologies byggir á því að meðhöndla viðinn með s.k. asetýlingu en framleiðsluferill Accoya er algerlega eiturefnalaus og bætir engum efnum við sem ekki eru í viðnum. Efninu er umbreytt frá ysta lagi inna að kjarna sem veitir honum framúrskarandi endingu og stöðugleika. Formbreytingar á Accoya við rakabreytingar eru einhverjar þær minnstu sem þekkjast í timbri og því er hægt að nota Accoya við erfiðustu aðstæður. Accoya er í endingarflokki 1 og framleiðandi ábyrgist að efnið endist 50 ár ómeðhöndlað sem klæðning og ekki í jörðu. Ef efnið er grafið í jörðu þá er á því 25 ára ábyrgð gegn því að efnið fúni. Hægt er að búa til mjög breiðar Accoya klæðningar þar sem efnið hreyfir sig ótrúlega lítið. Ef efnið er málað þá endist málningin mjög lengi á timbrinu vegna lítilla formbreytinga. Hægt er að fá Accoya efnið eldvarið þannig að það uppfylli  eldvarnarkröfur um brunaflokk B-s1, d0.

Accoya efnið getum við útvegað í fjölda þykkta, breidda og lengda. Efnið er með flestar ef ekki allar umhverfisvottanir sem þekkjast, Cradle to Cradle Certified®, Svanurinn, FSC og margar fl. 

Margverðlaunað timbur sem hægt er að nota við erfiðustu umhverfisaðstæður.   

 

Brenndar klæðningar (Shou Sugi Ban)

Sögin selur brenndar klæðningar frá fyrirtækinu Zwarthout í Hollandi en það sérhæfir sig í framleiðslu á hágæða viðarklæðningum brenndum samkvæmt Shou Sugi Ban aðferðarfræðinni. Hvert og eitt borð er brennt sérstaklega og meðhöndlað á ýmsa vegu. Hver viðartegund fær ákveðið munstur við brennsluna sem ræðst af tegund en þær viðartegundir sem við bjóðum brenndar eru Accoya, Douglas fura (Oregon Pine), hitameðhöndlað Radiata Pine, hitameðhöndlað Frake. Allt eru þetta viðartegundir sem endast mjög lengi, flestar í endingarflokki 1. Efnið er meðhöndlað á mismunandi vegu eftir brennslu, burstað, olíuborið eða meðhöndlað með náttúrulegum efnum til að styrkja kolað yfirborðið. Nokkrar að þessum brenndu klæðningagerðum má flokka sem viðhaldsfríar eða klæðningar þar sem brennt yfirborðið hefur verið styrkt sérstaklega.  

Fjöldi möguleika í boði er heita, Marugame, Kazura, Omiyama, Naoshima, Nakatado, Shodoshima, Takamatsu, Sakaide, Mitoyo, Sanuki. Sjá myndir á heimasíðu Swarthout 

https://www.zwarthout.com/en/4/products.html

Hægt að fá efnið brennt í mismunandi þykktum, 10 mm og 23-60 mm, breiddum frá 50 – 200 mm, lengdir 2,4m, 3m, 3,6m, 4,2m and 4,8m. 

 

Eldvarið efni

Í samstarfi við sænsku fyrirtækin Bäckegårds List og Woodsafe getum við útvegað eldvarðar timburklæðningar til nota bæði innan- og utanhúss. Timbrið er eldvarið undir þrýstingi og síðan þurrkað í rétt rakastig. Hægt er að eldverja með 2 gerðum af eldvarnaefnum fjöldann allan af viðar-tegundum, t.d. sedrus, lerki, greni, frake, eik, hitameðhöndlað frake, greni og furu, Accoya, poplar og margt fl. 

Utanhúsklæðningar sem ekki verður viðhaldið með málningu eru eldvarðar með Woodsafe Exterior WFX™ en efnið er eina vatnsþolna eldvarnarefnið í Evrópu sem er vottað samkvæmt CPR 305/2011, EN14915: 2013. Eldvörnin lekur ekki úr timbrinu með veðrun þó að efnið sé ekki meðhöndlað með yfirborðsefnum. 

  • Woodsafe Exterior WFX™ og Woodsafe PRO™ eldvarinn viður hefur þessa eiginleika:
  • Eldvörn er upfyllir skilyrði um K210/ B-s1,d0, K110/ B-s1,d0
  • Yfirborð er uppfyllir skilyrði um B-s1, d0 eða B-s2, d0
  • Klæðning er uppfyllir skilyrði SP-Fire105
  • Langtímaending eldvarnarefna tryggð samkvæmt EN16755 DRF EXT.

Hægt er að útvega eldvarðar klæðningar í fjölda viðartegunda og prófílgerða allt eftir óskum hvers og eins. Sérfræðingar Sagarinnar veita frekari upplýsingar um val á efni.