Fura, greni og lerki

Í gegnum árin hafa mörg falleg timburhús á Íslandi verið klædd með furu sem hefur verið máluð og viðhaldið reglulega en þannig utanhúsklæðning getur endst áratugum saman með góðu viðhaldi. Sama getur átt við um sérvalið og málað greni sem og lerki ef það er málað eða meðhöndlaðar með fúavarnarefnum. Kjarnviður furu og lerkis er í endingarflokki 3-4 en grenið er í endingarflokki 4. Til þess að furan og grenið uppfylli kröfur um líftíma sem utanhúsklæðning er það málað og fúavarið reglulega. Lerkið er oft notað ómeðhöndlað en það er hægt þar sem hlutfall kjarnviðs í lerki er mun hærra en í furu og greniborðum. Til að tryggja langan líftíma á lerki væri þó mjög skynsamlegt að bera á það reglulega. Með reglulegu viðhaldi má tvöfalda líftíma margra timburklæðninga sem geta þá enst mjög lengi.

Best er að hafa klæðningar úr furu, greni eða lerki með grófheflaðu yfirborði eða bandsöguðu. Þannig má stækka yfirborðið, málning tollir mun betur við efnið, þarf sjaldnar að mála. Gera má ráð fyrir að það þurfi að mála furu, greni og lerkiklæðningar c.a. 4 til 5 sinnum yfir líftíma klæðningarinnar eða á 8 til 10 ára fresti. Ef timbrið er málað í verksmiðju getur málningin endst mjög vel þar sem efnið er málað við rétt rakastig.

Sögin getur útvegað klæðningar í furu, greni og lerki, bæði ómálaðar eða málaðar, bandsagaðar, sléttar eða grófheflaðar. Hægt að fá klæðningar smíðaðar í fjölda þykkta og breidda. Fjöldi prófílgerða í boði fyrir bæði standandi klæðningar og liggjandi.